Fara í innihald

Kalvínismi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.
Framhlið aðalrits Kalvíns Institutio Christianae Religionis frá 1559

Kalvínska kirkjan öðru nafni endurbætta kirkjan eða siðbætta kirkjan varð til við klofning í röðum mótmælenda. Nafn kirkjudeildarinnar er dregið af siðbótarmanninum Jóhanni Kalvín en hann mótaði einna mest guðfræði hennar. Kalvínistar hafa annan skilning en Lútherstrúarmenn á ýmsum atriðum trúarinnar, til að mynda sakramentunum, biblíutúlkun og fyrirhugun Guðs.

Þær kenningar (sbr. latnesku; doctrína) sem í daglegu tali eru oftast nefndar „kalvinískar“ eiga sér í raun mun lengri sögu. Þannig er hægt að segja að Ágústínus af Hippó hafi fyrstur manna sett fram álíka kenningu í baráttu sinni við palagianisma sem kenndi að maðurinn gæti af sjálfum sér áunnið sér frelsi (þ.e. að hann væri ekki fallinn og þyrfti ekki á náð að halda). Margir áhangendur þessara kenninga, sem líta á þær sem Biblíulegar og þar með guðlegar, hafna einnig viðurnefninu „kalvinískar“ eða „kalvinistar“ (samanber fyrra Korintubréfið III kafla 4. vers: Þegar einn segir: Ég er Páls, en annar: Ég er Apollóss, eruð þér þá ekki eins og hverjir aðrir menn?) en kjósa heldur að kalla hana kenninguna um „einvalda náð“, „almáttuga náð“, „yfirvalda náð“ eða „náð drottins“.

Áhangendur þessarar kenningar vísa oft í Rómverjabréfið VIII kafla (til dæmis 30. vers: „Þá sem hann fyrirhugaði, þá hefur hann og kallað, og þá sem hann kallaði, hefur hann og réttlætt, en þá sem hann réttlætti, hefur hann einnig vegsamlega gjört.“) en einnig má finna sterk rök fyrir henni í VI kafla Jóhannesarguðspjalls. Kenning þessi er tölvert umdeild, því ef vilji mannsins er svo bundinn í synd (sbr. M. Lúther, Um ánauð viljans, sem kom út í íslenskri þýðingu Gottskálks Þórs og Jóns Árna árið 2003 og er til á öllum helstu bókasöfnum landsins) að hann geti ekki af sjálfum sér ákveðið að fylgja Kristi og Guð hafi (sbr. I kafla Efasusbréfsins vers 5) 'fyrirfram ákveðið' (g. προορίσας) hverjir skyldu komast til trúar á Krist, hafi Hann einnig ákveðið hverjir skyldu glatast. Þeir sem trúa á einvalda náð benda á að Páll postuli hafi gefið svar við þessu í IX kafla Rómverjabréfsins sem fjallar að mestu um þessa hluti. (Sem dæmi má vísa í 14.-20. vers: Hvað eigum vér þá að segja? Er Guð óréttvís? Fjarri fer því. Því hann segir við Móse: Ég mun miskunna þeim, sem ég vil miskunna, og líkna þeim, sem ég vil líkna. Það er því ekki komið undir vilja mannsins né áreynslu, heldur Guði, sem miskunnar. Því er í Ritningunni sagt við Faraó: Einmitt til þess hóf ég þig, að ég fengi sýnt mátt minn á þér og nafn mitt yrði boðað um alla jörðina. Svo miskunnar hann þá þeim, sem hann vill, en forherðir þann, sem hann vill. Þú munt nú vilja segja við mig: Hvað er hann þá að ásaka oss framar? Hver fær staðið gegn vilja hans? Hver ert þú, maður, að þú skulir deila á Guð? Hvort mundi smíðisgripurinn segja við smiðinn: Hví gjörðir þú mig svona?)

Söguágrip

Áhangendur kalvinismans rekja uppruna kirkju sinnar til Krists en kenning þessi var endurvakinn í Sviss, Suður- og Vestur-Þýskalandi og Frakklandi snemma á sextándu öld. Jóhann Kalvín var sá sem mótaði guðfræði þeirra hvað mest en áhrifa hans fór fyrst að gæta um miðja 16. öld eftir að fyrsta guðfræðiverk hans kom út (Stofnanir kristindómsins) árið 1536. Kalvin var franskur en var í útlegð í Genf þegar Ulrich Zwingli hóf ásamt fleirum siðbót í kjölfar siðbreytingar þeirrar er átti sér stað í Saxlandi á vegum Marteins Lúthers. Kalvín varði mestum hluta ævi sinnar sem sóknarprestur í dreifbýli en var um margt ósammála Lúther.

Hve mikilsverð áhrif Kalvíns voru kom brátt í ljós og fóru siðbættir söfnuðir að spretta upp hér og þar um Evrópu. Fyrir tilstilli John Knox varð siðbætta kirkjan sú stærsta í Skotlandi (þar sem Jólahátíðin var afnumin um skeið) og í Hollandi urðu siðbættir mjög fjölmennir. Einnig urðu áhrif þeirra mikil í Englandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi, Rúmeníu (einna helst Transylvaníu) og Póllandi. Evrópskir landnemar í Ameríku voru flestir siðbættir, þar með taldir hreintrúarmenn og hinir hollensku landnemar í Nýju Amsterdam (nú New York). Siðbættir Hollendingar voru fyrstir til að nema land svo heita megi í Suður-Afríku en landnemar þessir eru þekktir í sögunni undir heitinu Búar.

Kalvinistar komu einnig mikið við sögu í Enska borgarastríðinu á miðri 17. öld en hreintrúarmenn, svo sem Oliver Cromwell, voru þar í lykilhlutverki.

Ein stærstu samfélög kalvínista urðu til á 19. og 20. öld með trúboði og má þar nefna trúfélög þeirra í Nígeríu og Kóreu.

Helstu kenningar

Eftir dauða Kalvíns við Dordrechtþingið voru kenningar hans teknar saman í svokallaða fimm punkta kalvínismans sem eru oft hafðir til hliðar við fimm solo Lúthers sem dæmi um guðfræðileg afrek siðbótarinnar. Þessir punktar hljóða svona:

Algjör spilling

Þessi kenning var fyrst sett fram af Ágústínusi frá Hippo en samkvæmt honum spilltist hold allra afkvæma Adams svo að menn eru ekki lengur færir um að fylgja Guði heldur eru þeir fastir í uppreisn, það er að segja fangar syndarinnar.

Einhlít útvalning

Guð útvelur sína einhliða. Það er ekkert í manninum, hvorki kraftur, verðugleikar né hæfni, sem verðskuldar slíka náðargjöf.

Sérstök frelsun

Jesús Kristur frelsaði alla þá sem á hann trúa sérstaklega. Hann tók syndir þeirra á sig og greiddi fyrir þær á krossinum. Þetta gerði Hann í eitt skipti fyrir öll og var búið og gert er hann sagði: „Það er fullkomnað“.

Ómótstæðileg náð

Náð Guðs er ómótstæðileg þeim sem Hann hefur ákveðið að bjarga. Allir hinir útvöldu (þeir sem Kristur greiddi fyrir á krossinum) munu í fyllingu tímans komast til trúar á Krist.

Varðveisla hinna heilögu

Guð mun varðveita þá sem komast til trúar á Hann. Ef Jesús Kristur tók á sig syndir ákveðins einstaklings mun sá hinn sami hólpinn verða.

Ágreiningur Kalvíns og Lúthers

Fyrst spratt upp ágreiningur um skilning á sakramentunum og þá einkum kvöldmáltíðarsakramentið. Lúther hélt því fram að Jesús Kristur væri líkamlega nálægur í brauði og víni en siðbættir mótmæla þessu. Jóhann Kalvín hélt því þannig fram að hinn upprisni Kristur (sjá Upprisa Krists, á ensku) gæti einungis verið staðsettur á einum stað í einu þar sem líkami hans er raunverulegur. Hann hélt því hins vegar fram að Kristur væri andlega til staðar í brauðinu. Ulrich Zwingli hélt aftur á móti að sakramentið (L. það sem gert er) sem einnig má kalla tilskipunina, væri einungis táknrænt og er það viðhorf algengast meðal fagnaðarerindismanna (lesa má nánar um útbreiðslu fagnaðarerindisins) í dag. Lútherskar kirkjur telja sakramentin vera tæki til að miðla náðinni en að mati Kalvíns eru þau einungis vitnisburður um trú. Kalvinistar telja náðina vera gjöf frá Guði, menn geta hvorki unnið til hennar með verkum né miðlað henni, sbr. Rómverjabréfið VIII og IX kafla sem og Efasus bréfið II kafli 8.-9. vers: Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því. Þannig endurspeglast grundvallartrú kristindómsins í þessari kenningu. Hið sanna líf er gjöf Guðs, menn geta einungis orðið hólpnir fyrir trú en ekki af verkum og meira að segja trúin er ekki okkar verk heldur gjöf Guðs.

Einnig spratt upp ágreiningur um það hvort Guð hefði forákvarðað menn til frelsunar eða ekki. Kalvín hélt því fram að Guð hefði ákveðið fyrirfram hverjir myndu öðlast frelsi en aðrir ættu glötun vísa. Lúther var ósammála, að hans mati var forákvörðun Guðs öðruvísi því Guð vissi hverjir myndu frelsast því hann vissi hverjir myndu halda trúnni og hverjir ekki.

Kalvín og Lúther voru einnig ósammála um það hvernig bæri að túlka Biblíuna. Kalvín sagði að allar bækur Biblíunnar væru jafngildar og að hana ætti að nálgast sem eina heild. Lúther hélt því hins vegar fram að hver og einn skyldi hlusta á Guð tala til sín er hann læsi ritninguna. Sumar bækur hennar flytja orð Guðs betur og hreinna en aðrar og hver með sínum hætti. Þannig gat Lúther haldið sérstaklega upp á einstakar bækur Biblíunnar og var Rómverjabréfið í miklum metum hjá honum.

Játningar siðbættra

Játningar kalvínsku kirkjunnar eru fjölmargar og ber nokkuð á því að kalvínskar kirkjur víða um heim móti játningar sínar sjálfar. Áhrifamiklar eru þó Heidelbergkverið frá 1563 og Westminsterjátningin frá 1646. Þá má einnig minnast á Dordrechtjátninguna frá 1619 sem áréttar harðlega fyrirhugunarkenningu Kalvíns, en játningin er afleiðing deilna innan kirkjunnar um þá kenningu. Kalvínska kirkjan viðurkennir einnig, eins og lútherskar kirkjur, Postullegu trúarjátninguna, Aþanasíusarjátninguna og Níkeujátninguna.

Heimildir

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Calvinism“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 1. september 2006.
  • Einar Sigurbjörnsson (1991). Kirkjan játar. Skálholtsútgáfan.

Tenglar