Fara í innihald

Utrecht

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.
Utrecht
Fáni
Skjaldarmerki
Staðsetning
HéraðUtrecht
Flatarmál
 • Samtals99,32 km2
Mannfjöldi
 (2017)
 • Samtals345.000
 • Þéttleiki3.134/km2
Vefsíðawww.utrecht.nl Geymt 4 febrúar 2011 í Wayback Machine

Utrecht (á íslensku stundum nefnd Trekt) er borg í Hollandi og jafnframt höfuðborg héraðsins Utrecht. Hún var áður fyrr aðsetur furstabiskupanna sem ríktu yfir stóru svæði síðla á miðöldum. Með 345 þúsund íbúa er Utrecht fjórða stærsta borg Hollands og er ört stækkandi.

Lega og lýsing

Utrecht liggur nokkuð miðsvæðis í Hollandi, sunnan við Ijsselmeer og suðaustur af Amsterdam. Næstu borgir eru Hilversum til norðurs (15 km), Amersfoort til austurs (20 km), Amsterdam til norðvesturs (25 km) og Rotterdam til suðvesturs (30 km). Mikill skipaskurður, Amsterdam-Rijnkanaal, fer þvert í gegnum borgina. Vestan við skurðinn er stærsta byggingasvæði Hollands, Leidsche Rijn, en á 20 km2 svæði rís nýtt íbúðahverfi fyrir 100 þúsund manns.

Orðsifjar

Borgin hét Traiectum ad Rhenum á tímum Rómverja en það merkir ferjustaður eða vað yfir Rín. Úr Traiectum verður seinna Uit Trekt (frá Trekt) og loks Utrecht.

Saga Utrecht

Furstabiskupar

Skjalið frá Hinrik V keisara þar sem hann veitir Utrecht borgarréttindi. Það er dagsett 2. júní 1122.

Upphaf borgarinnar má rekja til Rómverja, en þeir reistu þar virki í kringum 50 e.Kr. Í kringum virkið myndaðist byggð og var hún ein nyrsta rómverska byggðin á meginlandi Evrópu. Byggðin var þó ávallt í hættu af innrásum germana og var Utrecht loks yfirgefin árið 275. Eftir það bjuggu frísar á svæðinu. Kristniboð hófst í Utrecht á miðri 7. öld af enskum og írskum munkum. Willibrordus varð fyrsti biskupinn á staðnum 695. Síðan þá hefur biskupsstóllinn þar verið ein mesta miðstöð kaþólsku kirkjunnar á Niðurlöndum. Árið 1024 voru biskuparnir gerðir að furstum í þýska ríkinu en yfirráðasvæði þeirra var í borginni og umhverfis hana en einnig á stóru landsvæði sem í dag spannar héruðin Overijssel og Drenthe. Þó hlaut Utrecht ekki borgarréttindi fyrr en 1122 af Hinrik V keisara. Á þessum tíma var Utrecht mikilvægasta borg norðurhluta Niðurlanda. Furstabiskuparnir ríktu allt til 1528. Biskuparnir voru svo valdamiklir í gegnum aldirnar að Adriaan Florenszoon Boeyens, sem fæddist í Utrecht, var valin páfi 1522 (Hadríanus VI) en hann reyndist síðasti páfinn sem ekki var Ítali þar til Jóhannes Páll páfi II hlaut páfakjör 1978.

Sjálfstæðisstríð

1528 seldi síðasti furstabiskupinn yfirráð sín til Karls V keisara en hann var af Habsborgarætt. Eitt fyrsta verk hans var að reisa gríðarlegt virki í Utrecht til að viðhalda völdum sínum þar en borgarbúar voru honum andsnúnir. Þegar hertoginn af Alba, landstjóri Spánverja á Niðurlöndum, stjórnaði svæðinu með harðri hendi, hófst uppreisn Hollendinga, sem varð að sjálfstæðisstríði þeirra. 23. janúar 1579 hittust aðilar ýmissa héraða og borga í Utrecht og gerðu með sér bandalag um stofnun sjálfstæðs ríkis. Undir samninginn rituðu héruðin Holland, Sjáland, Utrecht, Gelderland, Groningen, en seinna bættust við Overijssel, Frísland, Drenthe og nokkrar borgir (Gent, Brugge, Ypern, Antwerpen, Breda og Lier). Utrecht-sambandið kallaðist Lýðveldi hinna sjö sameinuðu Niðurlanda og markar upphafið að sjálfstæðu Hollandi. Eitt fyrsta verk hins nýja lýðveldis var að útiloka kaþólsku kirkjuna og leggja niður erkibiskupsdæmið í Utrecht. Þetta reyndist borginni dýrkeypt, því enn voru 40% íbúanna kaþólskir og borgin hálfvegis utanveltu í hinu nýja lýðveldi. Verslun dróst saman og íbúum fækkaði. 1617 réði borgin til sín leiguliða til að koma ýmsum málum sínum á framfæri gegn vilja lýðveldisins. Þá safnaði Márits af Óraníu herliði og hertók borgina í einu hendingskasti. Borgarstjórinn og uppreisnarmenn voru handteknir og ný borgarstjórn sett í embætti.

Fleiri stríð

Utrecht 1649

Vandræðabarnið Utrecht var til friðs næstu aldir. 1636 var háskólinn Universiteit Utrecht stofnaður, en hann er einn elsti háskóli landsins. Eftir miðja 17. öldina háðu Hollendingar verslunarstríð við Englendinga. Loðvík XIV Frakklandskonungur blandaði sér í leikinn og réðist inn í Holland. 13. júní 1762 hertóku Frakkar Utrecht, en aðeins fáum dögum síðar kom Loðvík konungur sjálfur til borgarinnar. Frakkar sátu í borginni til nóvembers 1673, en hurfu þá þaðan eftir að hafa fengið 450 þús gyllini að greiðslu. Á næsta ári gerði hvirfilbil í Utrecht, en við það eyðilagðist aðalkirkja borgarinnar. Í upphafi 18. aldar geysaði spænska erfðastríðið. Því lauk 1713 með friðarsamkomulaginu í Utrecht. Í samkomulaginu var kveðið á um að Filippus V, af hinni frönsku Búrbon-ætt, mætti ríkja sem konungur Spánar, en Frakkland og Spánn mættu aldrei sameinast undir einum konungi. Auk þess var spænska veldinu skipt upp í smærri einingar og Englendingar fengu lönd Frakka í Norður-Ameríku.

Nýrri tímar

Arthur Seyss-Inquart var landstjóri nasista í Hollandi og hafði aðsetur í Utrecht.

Utrecht var hertekin af Frökkum 1795, eins og landið allt. Þá voru borgarmúrarnir rifnir niður, en við það myndaðist mikið byggingapláss. Iðnvæðingin hófst þó ekki fyrr en eftir brotthvarf Frakka. 1843 fékk borgin járnbrautartengingu til Amsterdam og varð að miðstöð járnbrautanna í Hollandi. 1853 var Utrecht biskupssetur á ný, eftir tæplega 300 ára hlé. 10. maí 1940 hertóku Þjóðverjar Utrecht í heimstyrjöldinni síðari. 21. júní kom Arthur Seyss-Inquart til Utrecht, en Hitler hafði tilnefnt hann sem ríkisstjóra nasista í Hollandi. Hann hafði aðsetur í Utrecht meðan Þjóðverjar réðu í Hollandi. Gyðingum var smalað saman og sendir í útrýmingarbúðir. Af þeim 1.200 gyðingum sem bjuggu í Utrecht létust 900. Nasistar héldu borginni allt þar til Þjóðverjar gáfust upp 5. maí 1945. Tveimur dögum seinna þrömmuðu kanadískar sveitir inn í Utrecht og hernámu borgina. Eftir stríð hélt Utrecht áfram að vaxa og þenjast hratt út. Ný hverfi risu og enn eru ný hverfi í bígerð. Þar á meðal Leidsche Rijn en þar rís nýtt hverfi fyrir 100 þúsund manns á 20 km2 svæði.

Viðburðir

Blásarar leika listir sínar á gömul hljóðfæri í Festival Oude Muziek Utrecht

Festival aan de Werf er listahátíð borgarinnar sem haldin er í maí. Hún var fyrst haldin 1986 til minningar um háskólann, en hann varð 350 ára þetta ár. Hátíðin stendur yfir í fleiri daga og er boðið upp á tónlist, myndlist og gjörninga.

Festival Oude Muziek Utrecht er tíu daga tónlistarhátíð í borginni þar sem eingöngu notuð eru gömul og söguleg hljóðfæri frá miðöldum og fram til 1750. Hátíðin var fyrst haldin 1982 og fer fram á ýmsum sögulegum stöðum í miðborg Utrecht.

Le Guess Who? er nýleg tónlistarhátíð sem haldin er í Utrecht síðan 2007. Hér er um jaðartónlistarstefnur að ræða, svo sem noise rock, indí og IDM. Tónleikar eru víða í borginni

Nederlands Film Festival er tónlistarhátíð Hollands sem haldin er árlega í Utrecht í september og október. Á hátíðinni eru allar hollenskar myndir sýndar frá liðnu ári, þar á meðal stuttmyndir og fræðslumyndir. Veitt eru verðlaun fyrir bestu myndina, bestu leikstjórnina, besta leikarana, en verðlaunin heita Gullni kálfurinn.

Summer Darkness Festival er stærsta tónlistarhátíð Hollands þar sem jaðartónlist (svo sem goth) er spiluð. Tugir hljómsveita troða upp á annarri helgi í ágúst.

Íþróttir

Utrecht Marathon er Maraþonhlaup borgarinnar. Það var fyrst hlaupið árið 2000, en samfara því er hlaupið hálfmaraþon, 10km og 5km. Síðustu ár hafa hlauparar frá Kenía náð bestum árangri í hlaupinu.

Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Utrecht FC, sem varð hollenskur meistari 1958 og er að auki þrefaldur bikarmeistari (1985, 2003 og 2004).

Vinabæir

Utrecht viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

Knattspyrnumaðurinn Marco van Basten er eitt þekktasta barn Utrecht

Byggingar og kennileiti

Dómkirkjan í Utrecht er hæsta kirkja Hollands
  • Dómkirkjan í Utrecht er er hæsta kirkja Hollands með 112 metra og er einkennisbygging borgarinnar. Kirkjan var í margar aldir aðalkirkja furstabiskupanna þar í borg.
  • Hús Rietveld Schröder var reist 1924 af hollenska arkítektanum Gerrit Rietveld fyrir konuna Truus Schröder-Schräder og börnin hennar þrjú. Hún lét hanna húsið án veggja, ef hægt væri, og vann að byggingu hússins við hlið Rietvelds. Húsið er einstakt dæmi um De Stijl-arkítektúrinn í Hollandi. Frú Schröder bjó í húsinu til dánardags 1985. Það er safn í dag. Húsið var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 2000.
  • Sonnenborgh er heiti á gömlu virki í suðausturhluta borgarmúranna gömlu. Virkið var reist á 16. öld en eftir að borgarmúrarnir voru rifnir á 19. öld var virkið notað fyrir vísindasetur og veðurathugunarstöð. 1853 var stjörnuathugunarstöð stofnuð í byggingunni, sem í dag er nútímaleg og tengist háskólanum.

Heimildir

Fyrirmynd greinarinnar var „Utrecht (stad)“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 7. nóvember 2011.