Decius
Decius | |
Rómverskur keisari | |
Valdatími | 249 – 251 með Herenniusi Etruscusi (251) |
---|---|
Fæddur: |
um 201 |
Fæðingarstaður | Budalia, í núverandi Serbíu |
Dáinn: |
Júní 251 |
Dánarstaður | Abrittus, í núverandi Búlgaríu |
Forveri | Philippus arabi |
Eftirmaður | Trebonianus Gallus og Hostilianus |
Maki/makar | Herennia Etruscilla |
Börn | Herennius Etruscus, Hostilianus |
Fæðingarnafn | Gaius Messius Quintus Decius |
Keisaranafn | Caesar Gaius Messius Quintus Traianus Decius Augustus |
Tímabil | Illýrísku keisararnir |
Decius (um 201 – júní 251) (einnig þekktur sem Trajanus Decius) var rómverskur keisari frá 249 til dauðadags árið 251.
Decius var fæddur í Budaliu, (sem er í núverandi Serbíu) og var fyrsti keisarinn af fjölmörgum sem kom frá svæði sem Rómverjar kölluðu Illyricum. Decius náði frama í stjórnkerfi heimsveldisins áður en hann varð keisari, hann gegndi stöðu ræðismanns (consul), hann var landstjóri yfir nokkrum skattlöndum og hann var borgastjóri Rómaborgar (praefectus urbanus). Forveri Deciusar á keisarastóli, Philippus arabi, skipaði Decius yfirmann herdeilda við Dóná. Þar kvað hann niður uppreisn gegn Philippusi en var að því loknu sjálfur hylltur sem keisari af herdeildum sínum. Decius og Philippus mættust svo í bardaga, árið 249, nálægt Veróna á Ítalíu, þar sem Decius vann auðveldan sigur og Philippus féll.
Decius er einna helst þekktur fyrir að hafa gefið út tilskipun um það að allir íbúar Rómaveldis ættu að færa fórnir til æðri máttarvalda til að tryggja velferð keisarans og heimsveldisins. Fyrir flesta íbúa heimsveldisins var þetta ekki vandamál en margir kristnir söfnuðir neituðu að fara að tilskipuninni því þeim fannst þetta jafngilda því að tilbiðja keisarann sem guð. Þetta hafði í för með sér að kristnir urðu víða fyrir ofsóknum og á meðal þeirra sem voru drepnir var þáverandi páfi, Fabianus.
Decius var kvæntur Herenniu Etruscillu og átti með henni tvo syni, Herennius Etruscus og Hostilianus. Árið 251 gerði Decius Herennius Etruscus að meðkeisara og héldu þeir til Dónár að mæta Gotum sem þá höfðu gert innrás. Við borgina Abrittus, í núverandi Búlgaríu, mættust herirnir og biðu Rómverjar mikinn ósigur. Decius og Herennius Etruscus féllu báðir í orrustunni og urðu þar með fyrstu Rómarkeisararnir til þess að falla í bardaga við utanaðkomandi her. Einn helsti hershöfðingi Deciusar, Trebonianus Gallus, var hylltur sem keisari að bardaganum loknum. Gallus viðurkenndi Hostilianus, son Deciusar, sem meðkeisara en sá síðarnefndi lést stuttu síðar, sennilega úr plágu sem þá geisaði í Rómaveldi.
Fyrirrennari: Philippus arabi |
|
Eftirmaður: Trebonianus Gallus og Hostilianus |