Donald Duart Maclean
Donald Duart Maclean | |
---|---|
Fæddur | 25. maí 1913 |
Dáinn | 6. mars 1983 (69 ára) |
Þjóðerni | Breskur |
Menntun | Trinity Hall í Cambridge |
Störf | Njósnari |
Maki | Melinda Maclean |
Börn | 3 |
Donald Duart Maclean (25. maí 1913 - 6. mars 1983) var einn af svoköllðum Cambridge Five, sem voru starfsmenn MI5 og MI6, sem njósnuðu fyrir Sovétríkin í Seinni heimsstyrjöldinni. Hann var fæddur í London, sonur Sir Donald Maclean, sem var skoskur frjálslyndur stjórnmálamaður.
Maclean var ráðinn til starfa af Sovésku leyniþjónustunni árið 1934 meðan hann sótti nám í stjórnmálasögu og textafræði við Trinity Hall í Cambridge.
London
[breyta | breyta frumkóða]Á meðan Mclean var í London, var aðgerðum hans stýrt af Anatolíj Gorskíj sem var meðlimur í sovésku leyniþjónustunni GPU. Beinn yfirmaður Macleans var Vladímír Borísovítsj Barkovskíj, sem var verkfræðingur og því vel til þess fallinn að meðhöndla tæknileg smáatriði.
16. september 1941 sendi Maclean frá sér skýrslu um að Imperial Chemical Industries í samvinnu við breska ríkið myndu að líkindum ljúka smíði úransprengju innan tveggja ára. Var verkefni þetta kallað Tube Alloys. Maclean sendi sextíu blaðsíðna skýrslu til Moskvu, sem innihélt opinbera fundargerð bresku ráðuneytisnefndarinnar, sem sá um úransprengjuverkefnið.
Washington
[breyta | breyta frumkóða]Maclean var afkastamestur þann tíma sem hann vann í breska sendiráðinu í Washington (1944-1948) en hann var aðaluppspretta upplýsinga fyrir Stalín um samskipti og stefnuþróun milli Churchill og Roosevelt og seinna Churchill og Harry S. Truman. Þó hann hafi ekki sent tæknileg gögn um kjarnorkusprengjuna, greindi hann frá um þróun hennar og framvindu, þá sérstaklega magn úrans sem Bandaríkjunum var tiltækt. Hann var fulltrúi Breta í Bandarísku-Bresku-Kanadísku nefndinni um samnýtingu kjarnorkuleyndarmála og gat veitt Sovétríkjunum fundargerðir nefndarinnar. Þessar upplýsingar gerðu sovéskum vísindamönnum það kleift að segja til um fjölda sprengja sem gerðar yrðu af Bandaríkjamönnum. Ásamt Alan Nunn May og Klaus Fuchs, sem veittu tæknilegar upplýsingar, gerðu skýrslur Maclean Sovétmönnum ekki bara kleift að smíða kjarnorkusprengju, heldur líka að meta hlutfallslegan styrkleika kjarnavopnaforða þeirra gegn þeim bandaríska.
Áframhaldandi eftirlit hans á leynilegum skilaboðum milli Truman og Churchill gerði Stalín það kleift að vita nákvæmlega hvernig Bandaríkjamenn og Bretar höfðu ákveðið að hernema Þýskaland og skipta upp landamærum austur-evrópskra ríkja. Stalín var vopnaður þessari þekkingu ekki bara á Jaltaráðstefnunni heldur líka á ráðstefnunum í Potsdam og Tehran.
Maclean skýrði Moskvu frá því að takmark Marshalláætlunarinnar væri að tryggja efnahagsleg yfirráð Bandaríkjanna í Evrópu. Hið nýja alþjóðlega efnahagslega fyrirkomulag til að endurbyggja evrópska framleiðni yrði undir stjórn bandarísks fjármagns. Skilaboðin báru með sér að Marshalláætluninni væri ætlað að koma í stað greiðslu stríðsskaðabóta frá Þjóðverjum. Á þeim tíma höfðu Sovétríkin engar útflutningstekjur og voru því stríðsskaðabætur eina erlenda fjármagnið sem þau höfðu til að endurbyggja eftir stríðið. Samkomulagið sem náðist í Jalta og Potsdam kvað á um að Þjóðverjar gætu borgað stríðsskaðabætur til Rússlands næstu fimm árin í formi tækjabúnaðar, bíla, vörubíla og byggingarefna. Einnig voru ákvæði um að þessi varningur yrði ekki undir alþjóðlegu eftirliti og mættu Sovétmenn nota hann á hvern þann hátt sem þeim sýndist.
Árið 1948 var Maclean fluttur yfir í breska sendiráðið í Kaíró í Egyptalandi. Eftir ölvunaratvik þar, var hann sendur aftur til London, til að „jafna taugarnar“.
Það er óumdeilanlegt að upplýsingar sem Maclean gaf Stalín voru ómetanlegar í stefnugerð hans í Kalda stríðinu.
Uppgötvun og landflótti
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1949, uppgötvaði Robert Lamphere, sem rannsakaði njósnastarfsemi Rússa fyrir hönd FBI, ásamt dulmálsfræðingum, að á milli 1944 og 1946 hafði einhver starfsmaður breska sendiráðsins verið að senda skilaboð til Sovétmanna. Dulnefni starfsmannsins var „Hómer“. Með því að beita útilokunaraðferð á starfsmenn sendiráðsins á þessum tíma, féll grunur á þrjá til fjóra menn, sem mögulega gætu hafa verið Hómer. Einn af þeim var Mclean.
Rétt eftir að rannsókn Lampheres byrjaði, var Kim Philby úthlutað starfi í Washington, sem samskiptafulltrúi Breta við CIA, FBI og NSA. Þessi staða gerði honum kleift að komast yfir afkóðuð samskipti við Rússa, og sá hann að Mclean væri mjög líklega þessi Hómer. Hann staðfesti þetta við breska GPU yfirmann sinn. Hann var einnig meðvitaður um að Lamphere og samstarfsmenn hans höfðu komist að því að kóðuð skilaboð höfðu verið send til GPU frá New York. Maclean hafði heimsótt New York reglulega, að því er virtist til að heimsækja konu sína og börn, sem bjuggu þar með tengdarforeldrum hans.
Þrýstingurinn á Philby fór nú að aukast. Ef Maclean væri afhjúpaður sem sovéskur njósnari og ef hann þá játaði aðild sína, gæti slóðin leitt til hinna Cambridge njósnarana. Philby, sem gengdi nú mikilvægri stöðu sökum getu hans til að útvega upplýsingar til Sovétmanna, yrði hugsanlega bendlaður við málið sökum tengsla hans við Maclean. Áhyggjufullur yfir því að kennsl yrði borin á Maclean, og að hann yrði svo yfirheyrður og myndi játa sök sína við MI5, settu Philby og Burgess saman ráðabrugg þar sem að Guy Burgess myndi snúa aftur til London (þar sem Maclean var þá fulltrúi Ameríkumála utanríkisþjónustunnar). Burgess myndi svo vara Maclean við að afhjúpun hans væri yfirvofandi. Burgess var þann dag sektaður þrisvar sinnum fyrir of hraðan akstur.
Áður en Burgess flaug til London, tók Philby það fram afdráttarlaust að Burgess skyldi ekki flýja með Maclean.
Áform Philby-Burgess fólust í því að Burgess skyldi heimsækja Maclean á skrifstofu hans í utanríkisráðuneytinu, afhenda honum miða sem á stæði hvar þeir gætu hist — það var ályktað sem svo, að þar sem Maclean sæti undir grun, væri skrifstofan hans hleruð — og Burgess gæti útskýrt stöðuna. Júríj Modín, GPU stjórnandinn í London á þeim tíma, gerði ráðstafanir fyrir landflótta Macleans. Maclean var gríðarlega órólegur og tregur til að fara einn. Modin var reiðubúinn til að fara með honum, en GPU aðalstöðvarnar heimtuðu að Burgess myndi fylgja Maclean með bak við járntjaldið.
Á sama tíma, kröfðust MI5 þess að Maclean yrði færður inn til yfirheyrslu. Þeir höfðu ákveðið að honum yrðu sýnd sönnunargögn gegn honum, frá bæði FBI og MI5, á mánudeginum, 28. maí 1951.
Líf í Sovétríkjunum
[breyta | breyta frumkóða]Á afmælisdegi Macleans, 25. maí, föstudaginn áður en að hann skyldi yfirheyrður, flúðu Burgess og Maclean með skipi til Frakklands og hurfu. Hugsanlegt var að samstarfsmaður Burgess, Anthony Blunt, hefði komist að yfirvofandi yfirheyrslu Macleans, og varað Burgess við því. Blunt viðurkenndi það aldrei og er mögulegt að Burgess og Maclean hafi einfaldlega valið föstudaginn til að flýja, sama hvernig á stæði. Bæði Modin og Philby ályktuðu sem svo að Burgess myndi einfaldlega afhenda Maclean til fulltrúa GPU og snúa svo til baka. Af einhverjum ástæðum kröfðust Rússar þess að Burgess færi með Maclean alla leið. Það er hugsanlegt að Burgess hafi ekki verið lengur gagnlegur Rússum sem njósnari, en samt of mikilvægur til að lenda í höndum MI5.
Ólíkt hinum eftirláta Burgess, samlagaðist Maclean sovéska kerfinu, lærði rússnesku og vann svo þar að lokum sem sérfræðingur í efnahagsstefnu vestursins og breskra utanríkismála. Samt sem áður, á meðan hann bjó þar, talaði hann fyrir hönd sovéskra andófsmanna og gaf pening til fjölskyldu sumra þeirra sem sátu í fangelsi. Maclean var sæmdur Rauðfánaorðu verkamanna og Bardagaorðunni.
Bandarísk eiginkona hans, Melinda, kom til hans til Rússlands, en þau skildu seinna og sneri hún aftur til Bandaríkjanna. Hann dó úr hjartaáfalli árið 1983, lík hans var brennt og aska hans hýst í grafhvelfingu fjölskyldu hans í London.