Fara í innihald

Freddie Mercury

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Freddie Mercury
Mercury árið 1977
Fæddur
Farrokh Bulsara

5. september 1946(1946-09-05)
Dáinn24. nóvember 1991 (45 ára)
DánarorsökBerkjulungnabólga sem fylgikvilli alnæmis
ÞjóðerniBreskur
Önnur nöfn
  • Freddie Bulsara
  • Larry Lurex[1]
Störf
  • Söngvari
  • lagahöfundur
  • framleiðandi
Ár virkur1969–1991
Maki
  • Mary Austin (1970–1976)
  • Jim Hutton (1985–1991)
Tónlistarferill
StefnurRokk
Hljóðfæri
  • Rödd
  • píanó
  • hljómborð
Útgefandi
Áður meðlimur í
Undirskrift
Undirskrift Freddie Mercury

Freddie Mercury (5. september 1946 – 24. nóvember 1991), var aðalsöngvari og tónskáld bresku hljómsveitarinnar Queen. Hann fæddist sem Farrokh Bulsara í Stone Town á Sansibar en það er miðbær stærsta bæjarins, Zanzibar City. Foreldrar hans voru indverskir parsar (af írönskum ættum) og Freddie er sagður Indverji í fæðingarvottorði sínu. Hann gekk í heimavistarskólann St. Peters í Panchgani nálægt Mumbai á Indlandi. Þar lærði hann meðal annars að spila á píanó og kom í fyrsta sinn fram á sviði þar með skólahljómsveitinni The Hectics, en í henni voru fjórir skólafélagar hans auk hans sjálfs. Hann var enn í þeim skóla er hann tók upp nafnið Freddie og jafnvel foreldrar hans fóru fljótlega að nota það.

Hann kom til Englands 18 ára gamall og tók próf í listum og grafískri hönnun frá Ealing Art College og fetaði þar í fótspor Pete Townshend.

Freddie Mercury hafði sterka og áferðarfallega rödd, sem hann hafði mjög á valdi sínu. Raddsviðið var einnig óvenju vítt, eða nálægt þrjár og hálf áttund, en venjulegur maður ræður við tæplega tvær. Hann samdi mörg af frægustu lögum Queen, til dæmis Bohemian Rhapsody, Somebody to love og We are the Champions. Lagasmíðar hans eru sérstæðar og gætir þar áhrifa úr ýmsum áttum. Þær byggja á sterkri laglínu, samhljóm og flókinni hljómsveitarútsetningu.

Þegar Queen ákvað að gefa út lagið Bohemian Rhapsody árið 1975, sögðu allir þeim að það væri allt of langt (nálægt tvöfalt lengra en popplög almennt). Freddie gaf einum vina sinna, sem var plötusnúður á útvarpsstöð, eintak af prufuplötu með laginu og sagði honum að það væri handa honum persónulega og mætti hann ekki útvarpa því. En vinurinn stóð ekki við það, heldur útvarpaði laginu 14 sinnum á einum degi. Eftir það var lagið spilað á öllum stöðvum í óstyttri útgáfu og sló alveg í gegn. Eftir þetta varð Queen í hópi forystuhljómsveita áttunda áratugarins og áfram.

Freddie hannaði skjaldarmerki hljómsveitarinnar Queen. Efst er fuglinn Fönix að rísa upp úr eldi. Miðpunktur merkisins er stafurinn Q og kóróna inni í honum. Tvö ljón standa til hliðar, krabbi liggur ofan á bókstafnum og neðarlega sitja svo tveir blómálfar. Þau tákna stjörnumerki hljómsveitarmeðlima. Brian (f. 19. júlí) er krabbinn, ljónin eru Roger (f. 26. júlí) og John (f. 19. ágúst) og blómálfarnir eru tákn meyjarmerkisins, en það er Freddie sjálfur (f. 5. september). Merkið var fyrst notað á Queen-albúminu, síðar var það endurhannað og notað á A Night at the Opera.

Hann gaf út tvö sólóalbúm: Mr. Bad Guy (1985) og Barcelona (1988). Seinni platan var unnin í samvinnu við katalónsku sópransöngkonuna Montserrat Caballé. Samvinna þeirra, sem var hin fyrsta sinnar tegundar, kom mjög á óvart, en náði vinsældum og margir hafa fetað í þau fótspor. Eitt frægasta lag hans sem sólóista var endurútgáfa lagsins „The Great Pretender“ (1987), sem Platters höfðu gert frægt.

Freddie hneigðist að báðum kynjum en kom aldrei út úr skápnum. Vinkona hans og kærasta í sex ár var Mary Austin, en sambandi þeirra lauk er hann sagði henni frá kynhneigð sinni. Þau voru samt nánir vinir áfram og hann arfleiddi hana að húsinu sínu, sem metið var á 18 milljónir punda er hann lést sem og stefgjöldum af lögum hans. Síðasti karlkyns kærasti hans var Jim Hutton. Þeir bjuggu saman í síðustu átta árin, sem Freddie lifði. Jim hjúkraði honum í veikindum og var hjá honum þegar hann dó.

Þann 23. nóvember 1991 tilkynnti Freddie opinberlega að hann væri með eyðni (AIDS). Daginn eftir fékk hann hægt andlát, umkringdur vinum og fjölskyldu. Hann hafði haldið mikilli leynd yfir sjúkdómi sínum og aðeins þeir sem stóðu honum næstir vissu að hann var að dauða kominn.

Lík hans var brennt í Kensal Green Cemetery. Líkbrennslan fór fram að sið saraþústratrúar, sem var trú hans (persneski minnihlutinn í Indlandi er þeirrar trúar). Ekki er vitað hvar ösku hans er að finna.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Runtagh, Jordan (23. nóvember 2016). „Freddie Mercury: 10 Things You Didn't Know Queen Singer Did“. Rolling Stone. Afrit af uppruna á 23. ágúst 2018. Sótt 23. ágúst 2018.