Immanuel Kant
Vestræn heimspeki Heimspeki 18. aldar | |
---|---|
Nafn: | Immanuel Kant |
Fæddur: | 22. apríl 1724 |
Látinn: | 12. febrúar 1804 (79 ára) |
Skóli/hefð: | Heimspeki upplýsingarinnar |
Helstu ritverk: | Gagnrýni hreinnar skynsemi, Gagnrýni verklegrar skynsemi, Gagnrýni dómgreindar, Formáli að frumspeki, Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni, Frumspeki siðlegrar breytni |
Helstu viðfangsefni: | þekkingarfræði, frumspeki, siðfræði |
Markverðar hugmyndir: | skilyrðislausa skylduboðið, forskilvitleg hughyggja, samþættandi a priori þekking, hluturinn í sjálfum sér |
Áhrifavaldar: | David Hume, René Descartes, Nicolas Melbrance, Gottfried Wilhelm Leibniz, Baruch Spinoza, John Locke, George Berkeley, Jean-Jacques Rousseau |
Hafði áhrif á: | Johann Gottlieb Fichte, Friedrich Wilhelm Joseph von Schelling, Georg Wilhelm Friedrich Hegel, Arthur Scopenhauer, Charles Sanders Peirce, Friedrich Nietzsche, Ludwig Wittgenstein, A.J. Ayer, Edmund Husserl, Martin Heidegger, Jean-Paul Sartre, Jürgen Habermas, Ralph Waldo Emerson og fjölmarga aðra |
Immanuel Kant (22. apríl 1724 – 12. febrúar 1804) var prússneskur heimspekingur og er talinn vera síðasti merki heimspekingur upplýsingartímabilsins.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Æskuár
[breyta | breyta frumkóða]Immanuel Kant — sem var nefndur Emanuel en breytti síðar nafni sínu í Immanuel eftir að hafa lært hebresku — var fæddur 1724 í Königsberg í Prússlandi (nú Kalíníngrad í Rússlandi). Hann var fjórða barnið af níu sem foreldrar hans Jóhann Georg Kant (1682-1746) og Anna Regína Porter (1697-1737) eignuðust, fimm þeirra lifðu til fullorðinsára. Kant bjó alla sína ævi í heimabæ sínum sem þá var höfuðborg Austur-Prússlands. Faðir hans var handiðnaðarmaður frá Memel, norðaustustu borg Þýskalands (nú Klaipėda í Litáen), og móðir hans var dóttir söðlara. Ungur var Kant ábyrgur nemandi en þó ekki framúrskarandi. Hann var alinn upp við rétttrúnað sem þá var vinsæl umbótahreyfing innan lútherstrúar og lagði áherslu á mikla trúrækni, persónulegt lítillæti og lestur Biblíunnar. Menntun hans lagði ríkt á um latínu– og trúarkennslu frekar en stærðfræði og vísindi vegna þessa og var ströng og agamikil. Kant sagði síðar að þetta tímaskeið hefði fallið honum þungt í geð.
Menntun
[breyta | breyta frumkóða]Kant innritaðist í Háskólann í Königsberg árið 1740, þá sextán ára að aldri. Hann nam heimspeki Leibniz og Christians Wolff hjá Martin Knutsen, rökhyggjumanni sem vel var kunnur breskri heimspeki og vísindum og vakti áhuga Kant á stærðfræðilegri eðlisfræði Newton. Hann stöðvaði tímabundið nám 1746 þegar faðir hans fékk hjartaáfall og lést. Þá varð Kant einkakennari í úthverfum Königsberg en hélt áfram fræðilegum rannsóknum. Árið 1749 gaf hann út sitt fyrsta heimspekiverk, Hugleiðingar um rétt mat á lífskröftum. Kant gaf út nokkur verk vísindalegs eðlis og byrjaði að flytja fyrirlestra 1755. Nú byrjaði hann að einbeita sér meira að heimspekinni þótt hann héldi áfram að skrifa um vísindi allt sitt líf. Snemma á sjöunda áratug 18. aldar gaf hann út röð mikilvægra heimspekiverka. Rökfræðiverkið Sýnt fram á að fágun rökhendusniðanna fjögurra sé ósönn var gefið út 1762. Tvö önnur verk birtust í kjölfarið næsta ár: Tilraun til að kynna hugtakið neikvæðar stærðir í heimspeki og Einu mögulegu rökin til að styðja sönnun á tilvist guðs. Árið 1764 ritaði Kant svo Athuganir á tilfinningu fyrir fegurðinni og hinu tignarlega og Rannsókn á skýrleika frumsetninga náttúrulegrar guðfræði og siðfræði og var í öðru sæti á eftir Móses Mendelssohn í verðlaunakeppni berlínsku akademíunar (verkið er því gjarnan kallað „verðlaunaritgerðin“). Árið 1770, þá orðinn 45 ára gamall, var Kant gerður að prófessor í rökfræði og frumspeki við Háskólan í Königsberg. Þá ritaði Kant til varnar prófessorstöðu sinni Um snið og meginreglur skyn- og skilningsheimsins. Það verk endurspeglaði nokkur meginþemu síðari verka hans, þar á meðal takmörk mannlegrar skynsemi og skynjunar.
Síðari menntastörf
[breyta | breyta frumkóða]Fjörtíu og sex ára að aldri var Kant mikilsmegandi fræðimaður og hafði sífellt meiri áhrif sem heimspekingur. Menn bjuggust við miklu af honum. Eftir að hafa fengið bréf frá einum nemanda sinna, Markus Herz, sá hann að í Um snið og meginreglur skyn- og skilningsheimsins hafði hann ekki bent fyllilega á samhengi skilningarvitanna og skynseminnar. Hann stóð einnig í þakkarskuld við David Hume fyrir að hafa vakið sig upp af „svefni kreddufestunnar“ (um 1770). Ekkert rit birtist frá honum í rúman áratug.
Á þessu tímabili vann hann að því að laga vankanta í verkum sínum. Þrátt fyrir dálæti á félagsskap og samræðum lokaði Kant sig af og tilraunir vina hans til að draga hann úr einverunni voru árangurslausar. Kant sneri aftur úr einangruninni 1781 með útgáfu verksins Gagnrýni hreinnar skynsemi. Enda þótt verkið sé í dag almennt álitið eitt helsta heimspekirit sögunnar, þá var ritið að mestu hunsað við fyrst útgáfu. Bókin var löng, eða um 800 síður á frummálinu, og skrifuð í þurrum og fræðilegum stíl. Hún fékk litlar undirtektir og þeir fáu ritdómar sem voru skrifaðir kunnu ekki að meta brautryðjandi náttúru hennar. Kant var vonsvikin vegna móttöku bókarinnar. Hann gerði sér þó grein fyrir óskýrleika ritsins og skrifaði því Forspjall að sérhverri vísindalegri frumspeki framtíðar árið 1783 sem samantekt meginatriða hennar og fékk vin sinn Johann Schultz til að gefa út stutta athugasemd við Gagnrýni hreinnar skynsemi.
Orðstír Kants jókst á áttunda áratug 18. aldar í kjölfarið á útgáfu nokkurra rita: Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing árið 1784, Grundvöllur að frumspeki siðferðilegrar breytni árið 1785 sem var jafnframt hans fyrsta siðfræðiverk hans og Frumspekilegar forsendur náttúruvísinda árið 1786. Þó var frægð hans í raun að þakka Karl Reinhold sem gaf út röð af bréfum 1786 um kantíska heimspeki. Í þessum bréfum notaðist Reinhold við heimspeki Kant til að svara einu helsta deilumáli þess tíma: algyðistrúardeilunni. Friedrich Jacobi hafði sakað G. E. Lessing (frægt leikritaskáld sem skrifaði heimspekilegar ritgerðir) um að aðhyllast heimspeki Spinoza, en Lessing hafði nýlega látist. Slíkum ásökunum, sem svipaði til ásökunar um trúleysi, var harðlega neitað af vini Lessing að nafni Moses Mendelssohn og opinber deila hófst á milli þeirra. Ágreiningurinn snerist á endanum um gildi upplýsingarinnar og skynsemina. Reinhold hélt því fram í bréfum sínum að Gagnrýni hreinnar skynsemi eftir Kant gæti gert út um deiluna með því að verja yfirráð og takmörk skynseminnar. Bréf Reinhold voru víðlesin og gerðu Kant að frægasta heimspekingi síns tíma.
Verk eftir Kant
[breyta | breyta frumkóða]- (1748) Hugleiðingar um rétt mat á lífskröftum
- (1754) Rannsókn á spurningunni hvort jörðin hefur breyst í snúningi sínum...
- (1754) Um spurninguna hvort jörðin eldist frá náttúruvísindalegu sjónarhorni
- (1755) Almenn náttúrusaga og kenning um himininn
- (1755) Um eldinn
- (1755) Ný skýring á frumreglum frumspekinar
- (1756) Raunvísindaleg rökfræði
- (1757) Hugleiðingar um ótímabæran dauðdaga herra Johanns Friedrich von Funk
- (1762) Sýnt fram á að fágun rökhendusniðanna fjögurra sé ósönn
- (1763) Einu mögulegu rökin til að styðja sönnun á tilvist guðs
- (1763) Tilraun til að kynna hugtakið neikvæðar stærðir í heimspeki
- (1764) Athuganir á tilfinningu fyrir fegurðinni og hinu tignarlega
- (1764) Rannsókn á skýrleika frumsetninga náttúrulegrar guðfræði og siðfræðinnar
- (1765) Draumar miðilsins skýrðar með draumum frumspekinar
- (1768) Um endanlegan grundvöll munar á svæðum í rúmi
- (1770) Um snið og meginreglur skyn- og skilningsheimsins
- (1781) Gagnrýni hreinnar skynsemi
- (1783) Forspjall að sérhverri vísindalegri frumspeki framtíðar
- (1784) Hugmynd að algildri sögu frá sjónarhorni heimsborgarans (einnig þýtt sem Hugmynd að alheimssögu með heimsborgaralegu markmiði)
- (1784) Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?
- (1785) Um eldfjöll á tunglinu
- (1785) Grundvöllur að frumspeki siðferðilegrar breytni
- (1786) Frumspekilegar forsendur náttúruvísinda (einnig þýtt sem Frumspekilegur grundvöllur náttúruvísindanna)
- (1787) Gagnrýni hreinnar skynsemi (2. útg.)
- (1788) Gagnrýni verklegrar skynsemi (einnig þýtt sem Gagnrýni siðrænnar skynsemi)
- (1788) Um notkun tilgangsfræðilegra meginreglna í heimspeki
- (1789) Gagnrýni dómgreindarinnar
- (1791) Trú innan marka einberrar skynsemi (einnig þýtt sem Trúarbrögðin innan marka skynseminnar einnar
- (1791) Um gömglu tugguna: Það kann að vera rétt í kenningu en gengur ekki í verki
- (1794) Trú innan marka einberrar skynsemi — önnur útgáfa
- (1794) Svolítið um áhrif tunglsins á veðráttuna
- (1795) Um eilífan frið (einnig þýtt sem Hinn eilífi friður: Heimspekileg drög)
- (1796) Um eilífan frið — önnur útgáfa
- (1797) Frumspekilegar forsendur réttarkenningarinnar
- (1797) Frumspekilegar forsendur dyggðakenningarinnar
- (1797) Frumspeki siðlegrar breytni (Metaphysik der Sitten) - inniheldur Frumspekilegar grunnreglur laganna
- (1798) Átök deildanna (einnig þýtt sem Deildarþræta)
- (1798) Mannfræði frá sjónarhóli hentugleikans (einnig þýtt sem Mannfræði frá hagnýtu sjónarmiði)
- (1799) Rökfræði
- (1800) Náttúruvísindaleg landafræði
- (1801) Um uppeldisfræði
- (1804) Opus postumum
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Dictionary of Philosophy of Mind: „Immanuel Kant“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Kant's Aesthetic and Teleology“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Kant's Critique of Metaphysics“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Kant and Leibniz“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Kant's Moral Philosophy“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Kant's Philosophical Development“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Kant's Philosophy of Religion“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Kant's Philosophy of Science“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Kant's Theory of Judgment“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Kant's View of the Mind and Consciousness of Self“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Immanuel Kant (1724-1804: Metaphysics“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Immanuel Kant (1724-1804): Theory of Aesthetics and Teleology (The Critique of Judgment)“