Fara í innihald

Kjarnorkuver

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kjarnorkuver um allan heim.

Kjarnorkuver er mannvirki ætlað til að umbreyta orku í frumeindakjarna í raforku. Þau sjá fyrir umtalsverðum hluta raforkuframleiðslu í heiminum og eftir Kyoto-bókunina stefnir í að vægi þeirra við orkuframleiðslu eigi eftir að aukast.

Nokkrar mismunandi gerðir kjarnorkuvera eru starfræktar en þau byggja öll á sömu meginatriðum. Í kjarnaofni eru stórar frumeindir klofnar og við það losnar gríðarlegur varmi sem er leiddur í burt af kælikerfi. Kælikerfið nýtir varmann til að snúa túrbínum sem aftur knýja rafala.

Kjarnorkuver hafa þá kosti að þeim fylgir ekki losun gróðurhúsalofttegunda en aftur á móti eru þungu frumefnin sem eru nauðsynleg til að starfrækja kjarnorkuver takmörkuð auðlind. Mesti vandinn við kjarnorkuver er þó að þau losa frá sér stórhættulegan geislavirkan úrgang sem brotnar afar hægt niður.

Þrátt fyrir að kjarnorkuver losi ekki gróðurhúsalofttegundur eru þau ekki almennt viðurkennd sem umhverfisvænn kostur vegna geislavirks úrgangs. Einnig veldur það áhyggjum hve alvarlegar afleiðingar það hefur ef slys, leki eða sprenging, verða í kjarnorkuveri. Einkum kom þessi ótti fram eftir sprengingu í kjarnorkuveri í Tsjernobyl í Úkraínu þar sem geislavirkur úrgangur dreifðist um stóran hluta Evrópu.

Nýrri kjarnaorkuver eru sögð mun öruggari en eldri gerðir og í framtíðinni á að byggja nýjar gerðir kjarnorkuvera sem eiga að vera hagkvæmari, öruggari og umhverfisvænni en fyrri gerðir.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.