Fara í innihald

Lýðræðis- og byltingarhreyfing eþíópísku þjóðarinnar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lýðræðis- og byltingarhreyfing eþíópísku þjóðarinnar
የኢትዮጵያ ሕዝቦች አብዮታዊ ዲሞክራሲያዊ ግንባር
Leiðtogi Meles Zenawi (1988-2012)
Hailemariam Desalegn (2012-2018)
Abiy Ahmed (2018-2019)
Stofnár 1988
Lagt niður 2019
Gekk í Velmegunarflokkinn
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Eftir 1991:
Byltingarstefna
sambandsstjórnarstefna

Fyrir 1991:
Marx-lenínismi
Hoxhaismi[1][2]

Lýðræðis- og byltingarhreyfing eþíópísku þjóðarinnar (amharíska: የኢትዮጵያ ሕዝቦች አብዮታዊ ዲሞክራሲያዊ ግንባር ye’ītiyop’iya ḥizibochi ābiyotawī dīmokirasīyawī ginibari) var stjórnmálabandalag í Eþíópíu sem aðhylltist sambandsstjórn þjóðernishópa landsins.[3] Í daglegu tali var hreyfingin gjarnan kölluð EPRDF eftir nafni sínu á ensku, Ethiopian People's Revolutionary Democratic Front. Bandalagið samanstóð af fjórum stjórnmálaflokkum: Þjóðfrelsishreyfingu Tígranna, Amhara-lýðræðisflokknum, Orómó-lýðræðisflokknum og Suður-eþíópísku lýðræðislegu alþýðuhreyfingunni. Eftir að hreyfingin kollvarpaði kommúnísku Derg-stjórninni árið 1991 réð hún lögum og lofum í eþíópískum stjórnmálum til ársins 2019.

Í nóvember árið 2019 var Lýðræðis- og byltingarhreyfingin leyst upp að undirlagi forsætisráðherrans Abiy Ahmed og aðildarflokkunum var steypt saman í nýjan flokk, Velmegunarflokkinn.[4] Þjóðfrelsishreyfing Tígra neitaði hins vegar að taka þátt í stofnun flokksins og hún er því ein gömlu aðildarflokkanna sem enn starfar sjálfstætt.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Á tíma borgarastyrjaldarinnar í Eþíópíu var Lýðræðis- og byltingarhreyfingin uppreisnarhópur sem barðist gegn Derg, kommúnískri einræðisstjórn herforingjans Mengistu Haile Mariam sem entist frá 1974 til 1987. Á þessum tíma tók Derg-stjórnin tugi þúsunda stjórnarandstæðinga af lífi án dóms og laga og um 400.000 manns sultu til dauða í hungursneyð árin 1983-1985.[5]

Lýðræðis- og byltingarhreyfingin varð til árið 1989 með samruna Þjóðfrelsishreyfingar Tígra og Eþíópísku lýðræðislegu alþýðuhreyfingarinnar. Síðar gengu til liðs við hreyfinguna meðlimir úr uppreisnarhreyfingu Orómóa og hópur af hermönnum Derg-stjórnarinnar sem höfðu snúið baki við einræðisstjórninni.[3]

Eftir að kommúnistastjórn Eþíópíu hrundi í byrjun tíunda áratugarins fóru Bandaríkin að styðja Lýðræðis- og byltingarhreyfinguna. Michael Johns, sérfræðingur í Afríkumálum við Heritage-stofnunina, skrifaði árið 1991 að „það [væru] jákvæðar blikur á lofti um að hreyfingin hyggist hverfa frá einræðistilburðum Mengistu“.[6]

Hugmyndafræði

[breyta | breyta frumkóða]

Lýðræðis- og byltingarhreyfingin þróaði aldrei með sér skýra eða einsleita hugmyndafræði. Meðlimir hennar aðhylltust viðhorf af ýmsum toga sem voru þó á heildina litið vinstra megin við stjórnarandstöðuna.[3] Hreyfingin lagði áherslu á ýmis almenn markmið eins og hraðan útflutningshagvöxt, náið samstarf við Bandaríkin í utanríkis- og varnarmálum, náið samstarf við Kína í efnahags- og verslunarmálum og ýmis nýlegri viðfangsefni eins og umbætur á eþíópískum ríkisstofnunum. Umbæturnar fólust meðal annars í einföldun á stjórnsýslunni, einkavæðingu ríkisfyrirtækja og aðlögun skattkerfisins og efnahagsins að væntanlegri fólksfjölgun í landinu.[7] Á tíunda áratugnum var jafnframt lögð áhersla á alþjóðavæðingu og aukið frjálslyndi í efnahagskerfi landsins og reynt að ýta undir innlenda neyslu og aukna menntun.[7] Þrátt fyrir viðleitni til að ýta undir viðskiptafrelsi var haldið í verndartolla á innflutningsvörum til landsins.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „- Warum Ahmed ein guter Preisträger ist – trotz seiner Fehler“. ZDF.
  2. „Kommentar: Äthiopiens Reformregierung und die Kräfte des ethnischen Nationalismus“. Deutsche Welle.
  3. 3,0 3,1 3,2 Vaughan, Sarah (2003). "Ethnicity and Power in Ethiopia" (PDF). Geymt 13 ágúst 2011 í Wayback Machine University of Edinburgh: Ph.D. Thesis. p. 168.
  4. Exclusive: Third day EPRDF EC discussing “Prosperity Party” Regulation. Find the draft copy obtained by AS
  5. de Waal, Alex (1997). Famine Crimes: Politics & the Disaster Relief Industry in Africa. Oxford: James Currey. ISBN 0-85255-810-4.
  6. Johns, Michael (August 1991). "Does Democracy Have a Chance?" Geymt 23 ágúst 2013 í Wayback Machine. The World and I, in: The Congressional Record (6 May 1992).
  7. 7,0 7,1 Ethiopia's Great Run: The Growth Acceleration and How to Pace It (PDF). Alþjóðabankinn. 2015.