Sahara
Sahara er önnur stærsta eyðimörk heims (á eftir Suðurskautslandinu) og nær yfir 9.000.000 km² svæði, eða allan norðurhluta Afríku. Hitinn í eyðimörkinni getur náð 57°C yfir daginn og farið undir frostmark á nóttunni. Sahara er um 2,5 milljón ára gömul. Nafnið kemur frá arabíska orðinu yfir eyðimörk; صحراء (ⓘ).
Sahara skiptist milli landanna Marokkó, Túnis, Alsír, Líbíu, Vestur-Sahara, Máritaníu, Malí, Níger, Tjad, Egyptalands og Súdan. Hún nær samfellt 4.000 km frá Atlantshafi í vestri að Rauðahafi í austri, ef Nílardalur er undanskilinn. Frá Miðjarðarhafi og Atlasfjöllum í norðri þangað sem hún mætir sléttunum í Mið-Afríku eru 2000 km. Þar verða skilin milli eyðimerkur og gróðurlendis smám saman ógreinilegri.
Á þessu svæði, sem þekur 27% af álfunni, búa um 2,5 milljónir manna með ólíka menningu, bændur, hirðingjar, veiðimenn og safnarar. Helstu þjóðarbrotin eru Túaregar, Saravar, Márar, Tíbúfólkið, Núbíumenn og Kanúrífólkið. Helstu borgir eru Núaksjott í Máritaníu, Algeirsborg í Alsír, Timbúktú í Malí, Agadez í Níger, Ghat í Líbíu og Faya í Tjad.
Í Sahara er víða að finna vatn í jörðu, og þar er fjölbreytt dýralíf.