Fara í innihald

Sauðá

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sauðá
Sauðá rennur gegnum Litlaskóg og tekur krók gegnum bæjarstæði Sauðárkróks, en þaðan dregur bærinn nafn sitt.
Map
Einkenni
UppsprettaMolduxi
Hnit65°42′56″N 19°39′51″V / 65.7155°N 19.664102°V / 65.7155; -19.664102
breyta upplýsingum

Sauðá er bergvatnsá í vestanverðum Skagafirði og dregur Sauðárkrókur nafn af ánni. Sauðá kemur upp í fjallinu Molduxa sunnan við Sauðárkrók og rennur í Sauðárgili gegnum bæinn. Þegar niður á jafnsléttu kom rann áin áður til norðurs þar sem nú er íþróttavöllur bæjarins og sundlaug og síðan til sjávar gegnum gamla bæinn. Oft komu flóð í ána sem ollu skaða og árið 1950 var ánni veitt til austurs niður á Borgarmýrar og í Tjarnartjörn.[1]

Í Sauðárgili er skógrækt og kallast þar Litliskógur. Þar var hlaðinn upp sundpollur árið 1912, veitt í hann vatni og hann notaður til sundkennslu um langt skeið. Nokkru ofar er stífla í ánni sem reist var 1930 þegar áin var virkjuð. Þaðan er nú veitt vatni til iðnaðarfyrirtækja á Sauðárkróki.[2]

Sunnan við Sauðá stóð áður samnefndur bær. Á Sauðá var lengi þingstaður hreppsins, sem kallaðist þá Sauðárhreppur,[3] en árið 1907 var honum skipt í Sauðárkrókshrepp og Skarðshrepp.[4]

  1. Sólveig Olga Sigurðardóttir; Sólborg Una Pálsdóttir (2018). „TILLAGA AÐ VERNDARSVÆÐI Í BYGGÐ SAUÐÁRKRÓKUR“ (PDF). Sveitarfélagið Skagafjörð.
  2. „Sauðá“. Gönguleiðir. Sótt 4. september 2024.
  3. Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 4. september 2024.
  4. „ÚRSKURÐUR ÓBYGGÐANEFNDAR“ (PDF). desember 2014.