Fara í innihald

Golfstraumurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 12. desember 2019 kl. 19:44 eftir TKSnaevarr (spjall | framlög) Útgáfa frá 12. desember 2019 kl. 19:44 eftir TKSnaevarr (spjall | framlög) (Tók aftur breytingar 89.160.240.100 (spjall), breytt til síðustu útgáfu Akigka)
(breyting) ← Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Golfstraumurinn er gulur og appelsínugulur á þessari sjávarhitamynd af Atlantshafi. Heimild: NASA.

Golfstraumurinn er hlýr hafstraumur sem á upptök sín í Karíbahafi og rennur í norður og norðaustur um Atlantshaf. Ýmsir fræðimenn nota hugtakið Golfstraumur einungis um þann hluta hans sem nær frá Hatterashöfða í Norður-Karólínufylki í Bandaríkjunum og norður fyrir Nýfundnaland. Sá hluti hans sem nær til Íslands er kallaður Norður-Atlantshafsstraumur, en hinn hlutinn, frá Karíbahafinu að Hatterashöfða er kallaður Flórídastraumur.[1]

Almennar upplýsingar

[breyta | breyta frumkóða]

Ferill Golfstraumsins

[breyta | breyta frumkóða]

Golfstraumurinn er upprunninn er skammt norðan við miðbaug í vestlægum hafstraumum sem fara um Karíbahaf, inn í Mexíkóflóa og út um Flórídasund. Hann fer norður með austurströnd Bandaríkjanna, en á um 40° norðlægrar breiddar sveigir hann austur yfir Atlantshafið og tekur hluti hans stefnuna að ströndum Vestur-Evrópu. Annar hluti hans fer í suðaustur meðfram ströndum Vestur-Afríku, uns hann fer svo inn í Karíbahafið aftur. Sá hluti sem tekur stefnuna á Vestur-Evrópu klofnar svo aftur við Færeyjahrygg, önnur kvíslin fer vestur með Íslandi en hin norður með Noregi. Þaðan fer hluti hans í Barentshaf en meginhlutinn norður með vesturströnd Svalbarða, þar sem áhrifa Golfstraumsins gætir vart lengur vegna kulda.

Margir hafa eflaust velt því fyrir sér af hverju jafn hlýtt er í Evrópu og raun ber vitni. Evrópa á Golfstraumnum mikið að þakka í þeim efnum. Hann flytur nefnilega hlýjan sjó norður Atlantshafið, sem síðan fer út í loftið í kring, þannig að suðlægir vindar hér um slóðir eru mun hlýrri en á svipuðum breiddargráðum á jörðinni. Talið er að Golfstraumurinn hafi flætt um Norður-Atlantshafið síðast þegar ísöld ríkti á norðurhveli, eða fyrir um 10.000 árum, en greinar hans sem ná lengst í norður, t.d. til Íslands, hafi ekki verið til staðar þá. [2]

Yfirborðsstraumar í hafinu umhverfis Ísland. Rauðu örvarnar tákna hlýjan og saltan sjó, bláu kaldan seltulítinn pólsjó, grænu kaldan svalsjó og gulu strandsjó. Heimild: Vísindavefurinn.

Áhrif við Ísland

[breyta | breyta frumkóða]

Eins og áður segir hreyfist hinn hlýi Norður-Atlantshafsstraumur til norðausturs að vesturströnd Evrópu allt norður fyrir Noreg. Ein kvísl þessa straums liggur upp að suðurströnd landsins. Hann streymir svo vestur með ströndinni og norður með vesturströndinni að hryggnum milli Íslands og Grænlands, þar sem hluti hans heldur áfram fyrir Horn og austur með Norðurlandi og er sá hluti hans oft kallaður Irmingerstraumur. Þar tekur svo við kaldur straumur, Austur-Íslandsstraumur, sem liggur til suðausturs úti af Norðaustur- og Austurlandi og frá landinu.[3]

Allir Íslendingar vita hversu milt veðurfarið er á Íslandi, sérstaklega á veturna. Það eru þó ekki allir sem vita hversu mikið við eigum Golfstrauminum að þakka í þeim málum. Til samanburðar má nefna að eyjar í Beringssundi sem eru á svipuðum breiddargráðum og Ísland, eru stóran hluta ársins umluktar hafís, sem gerir þeim erfitt fyrir þegar kemur að fiskveiðum og ferðalögum. Nokkuð augljóst má því telja að Íslendingar myndu engan veginn hafa það eins gott og raun ber vitni, ef Golfstraumsins nyti ekki við.

Munur á hafís á norðurhveli í mars og september.

Vegna þess að Golf- og Irmingerstraumarnir teygja sig nánast í kringum landið, þá er mun minna um hafís við Ísland en ætla mætti. Fyrir því eru að sjálfsögðu fleiri ástæður, sér í lagi hagstæðar vindáttir sem halda hafísnum við Grænlandsstrendur. Hafís við Íslandsstrendur er að mestu leyti kominn mjög langt að, en hann berst hingað með Austur-Grænlandsstraumnum alla leið vestan úr Grænlandssundi, en þó kemur fyrir að hann berst beint úr norðri að norðausturhorni landsins.[4] Ef skoðaðar eru gervitunglamyndir af hafsvæðinu milli Íslands og Grænlands, má oftar en ekki sjá mjög skörp skil milli íss og sjávar, sem liggja oft samsíða strönd Grænlands.

  1. „Hvað er Golfstraumurinn?“. Vísindavefurinn.
  2. „Ef Golfstraumurinn stoppar vegna bráðnunar heimskautaíss væri þá ekki hægt að koma honum af stað aftur með saltefnum?“. Vísindavefurinn.
  3. Markús Á. Einarsson (1976). Veðurfar á Íslandi. Bókaforlagið Iðunn.
  4. „Hafís við Ísland“. Sótt 28. mars 2008.