Fara í innihald

Maximianus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 21. september 2022 kl. 12:33 eftir Yonghwoarang (spjall | framlög) (giftst --> kvæntist)
(breyting) ← Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Maximianus
Rómverskur keisari
Valdatími 285 – 305
undir Diocletianusi (285 – 286)
með Diocletianusi (286 – 305)
yfir Constantiusi (293 – 305)

Fæddur:

um 250

Dáinn:

Júlí 310
Dánarstaður Massilia (núverandi Marseille)
Forveri Diocletianus (einn)
Eftirmaður Constantius og Galerius
Maki/makar Eutropia
Börn Flavia Maximiana Theodora
Maxentius
Fausta
Keisaranafn Marcus Aurelius Valerius Maximianus Herculius Augustus
Tímabil Fjórveldisstjórnin

Marcus Aurelius Valerius Maximianus Herculius (250 – júlí 310) var keisari Rómaveldis á árunum 286 til 305.

Diocletianus útnefndi Maximianus caesar, eða undirkeisara, árið 285. Hann hafði þá verið hershöfðingi um skeið, m.a. undir keisurunum Aurelianusi, Probusi og Carusi. Diocletianus hafði fyrr á árinu 285 tryggt sína stöðu sem keisari er hann sigraði Carinus í bardaga, en tíð átök undanfarinna áratuga sýndu að erfitt var fyrir einn keisara að tryggja stöðugleika í ríkinu. Diocletianus þurfti því á vönum hershöfðingja að halda til þess að hjálpa sér við að verjast árásum utanfrá og að bæla niður uppreisnir innan heimsveldisins. Hlutverk Maximianusar var að stjórna vesturhluta Rómaveldis á meðan Diocletianus, sem hafði titilinn augustus og var því hærra settur, einbeitti sér að austurhlutanum.

Maximianus þurfti fljótlega að taka upp vopn þar sem uppreisnarmaðurinn Carausius hafði lýst sjálfan sig keisara í Bretlandi og í hluta Gallíu. Maximianus þurfti hins vegar að fresta innrás í Bretland þar sem Carausius hafði tryggt sér völd yfir öllum flota Rómverja á þessum slóðum. Árið 286 tók Maximianus sér titilinn augustus og var frá þeim tíma fullgildur keisari. Átökum við Carausius var svo slegið á frest og Maximianus einbeitti sér að því, ásamt Diocletianusi, að tryggja norður-landamæri Rómaveldis, við Rín og Dóná, gegn germönskum þjóðflokkum.

Fjórveldisstjórn

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 293 var hin svokallaða fjórveldisstjórn mynduð, en í henni fólst að Maximianus og Diocletianus skipuðu hvor um sig einn undirkeisara (caesar). Maximianus skipaði Constantius Chlorus tengdason sinn sem hafði verið yfirmaður lífvarðasveitar hans. Diocletianus skipaði Galerius.

Maximianus og Constantius sneru sér nú að því að berjast við Carausius. Þeir börðust fyrst við bandamenn hans í Gallíu, með þeim afleiðingum að Carausius missti stuðning og Allektus, fyrrum bandamaður hans, tók hann af lífi. Allektus tók þá við sem uppreisnarforingi, en Constantius sigraði hann í bardaga árið 296.

Árin 297-298 var Maximianus á norðurströnd Afríku í Máretaníu (núverandi Marokkó) að berjast gegn Berbum sem ráðist höfðu inn í svæðið frá Atlasfjöllum. Maximianus sigraði þá og rak þá suður til Sahara-eyðimerkurinnar. Fyrir vikið fagnaði hann sigri í Róm árið 299.

Maxentius, sonur Maximianusar, var ekki skipaður keisari þegar faðir hans sagði af sér og gerði síðar uppreisn

Diocletianus og Maximianus sögðu svo báðir af sér sama dag, 1. maí árið 305. Þeir voru fyrstir Rómarkeisara til að segja af sér en talið er að Maximianus hafi verið tregur til og aðeins sagt af sér vegna þrýstings frá Diocletianusi. Constantius varð nú augustus í vesturhlutanum og Galerius í austurhlutanum. Bæði Maxentius, sonur Maximianusar, og Konstantínus, sonur Constantiusar, þóttu líklegir til þess að verða undirkeisarar, en gengið var framhjá þeim báðum og Flavius Valerius Severus og Maximinus Daia voru skipaðir í staðinn.

Þær umbætur sem gerðar voru á stjórnsýslu, lögum og skattheimtu Rómaveldis á valdatíma Maximinusar og Diocletianusar, og bundu enda á óstöðugleikann sem einkenndi 3. öldina, voru að langmestu leyti Diocletianusi að þakka frekar en Maximianusi. Hlutverk Maximianusar í stjórn ríkisins var aðallega hernaðarlegt og hann virðist alltaf hafa álitið Diocletianus vera æðri keisarann, þrátt fyrir að þeir bæru báðir titilinn augustus.

Misheppnuð endurkoma

[breyta | breyta frumkóða]

Constantius Clorus lést árið 306 og varð Konstantínus þá keisari. Maxentius ákvað þá að lýsa sjálfan sig keisara og fékk til þess stuðning ýmissa valdamanna í Róm. Maximianus sneri þá aftur inn á pólitíska sviðið til að styðja son sinn og fékk Konstantínus til að styðja hann líka. Fljótlega sinnaðist Maximianusi þó við son sinn og reyndi sjálfur að taka keisaratitil hans. Það mistókst og á ráðstefnu sem haldin var árið 308, til að leysa úr þeirri flækju sem myndast hafði í fjórveldisstjórninni, var Maximianus aftur þvingaður til að hætta að skipta sér af stjórn ríkisins. Maxentiusi var á sama tíma vísað frá keisaratign.

Konstantínus var kvæntur dóttur Maximianusar, Faustu, og áleit hann Maximianus hliðhollan sér. Árið 310 fól Konstantínus Maximianusi að stjórna nokkrum herdeildum sem verjast áttu hugsanlegri árás frá Maxentiusi, sem enn var í uppreisnarhug. Maximianus ákvað hins vegar að lýsa því yfir að Konstantínus væri allur og lýsti sjálfan sig keisara í hans stað. Til þessa fékk hann þó engan stuðning og Konstantínus tók hann til fanga og þvingaði hann til að segja af sér í þriðja sinn. Stuttu síðar, í júlí 310, framdi Maximianus sjáfsmorð.


Fyrirrennari:
Diocletianus (einn)
Keisari Rómaveldis
(286 – 305)
Eftirmaður:
Constantius og Galerius