Hilmar Finsen
Søren Hilmar Steindór Finsen (24. janúar 1824 – 15. janúar 1886), sem gekk oftast undir nafninu Hilmar Finsen á Íslandi, var dansk-íslenskur stjórnmálamaður sem gegndi margvíslegum embættum á vegum danska ríkisins á embættisferli sínum. Hann var stiftamtmaður á Íslandi og fulltrúi konungs á Alþingi á árunum 1865-73, fyrsti landshöfðingi Íslands 1873-1882, borgarstjóri Kaupmannahafnar 1883-84 og innanríkisráðherra Danmerkur í rétt tæplega ár, 1884-85.
Ævi
[breyta | breyta frumkóða]Hilmar fæddist í Kolding á Jótlandi. Foreldrar hans voru Jón Finsen, héraðsfógeti, og Dorothea Katharina en Jón var sonur Hannesar Finnssonar biskups. Hilmar var uppalinn í Danmörku. Árið 1841 útskrifaðist hann frá grunnskóla í Kolding og fimm árum seinna, 1846 lauk hann embættisprófi í lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Á meðan hann dvaldist í Kaupmannahöfn kynntist hann mörgum af þeim sem áttu eftir að verða fyrirferðarmiklir seinna meir, þeirra á meðal Orla Lehmann, Ditlev Gothard Monrad, Carl Christian Hall, Carl Ploug o.fl. Hann tók þátt í fyrra Slésvíkurstríðinu (einnig þekkt sem Þriggja ára stríðið) sem herdómari. Árið 1850 var hann skipaður borgarstjóri Sønderborg, þeirri stöðu gegndi hann í fjórtan ár til 2. júlí 1864 en þá hertóku Prússar hana í Síðara Slésvíkurstríðinu. Í tæplega hálft ár, frá mars og fram í nóvember það ár sat Hilmar á danska þjóðþinginu.
Þann 8. maí 1865 var hann gerður að stiftamtmanni yfir Íslandi og varð þar með æðsti embættismaður Íslands undir kónginum. Danakonungur hafði ekki skipað stiftamtmann frá því að Trampe greifi lét af embættinu fimm árum fyrr en í millitíðinni hafði Þórður Jónassen sinnt embættisskyldum stiftamtmanns. Hilmar kom til Íslands og var svo gerður að fyrsta landshöfðingjanum 1. apríl 1873. Því embætti gegndi hann í áratug en þá fluttist hann aftur til Danmerkur og tók við embætti yfirborgarstjóra Kaupmannahafnar. Hilmar var innanríkisráðherra Danmerkur í rétt tæplega ár, 1884-85. Hann lést 15. janúar 1886.
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Óðinn, 1.-6. tölublað (01.01.1924)
- Æfiágrip Hilmars Finsen landshöfðingja (1895), eftir Hallgrím Sveinsson
- Saga Dómkirkjunnar - Umsjónartími Hilmars Finsen stiftamtmanns og landshöfðingja 1865-1882
- Bernskuminningar stiftamtmannsdótturinnar; grein í Lesbók Morgunblaðsins 17.07.1938
- Upplýsingar um leiði Hilmars
- Fimm bréf frá Hilmari Finsen stiftamtmanni til Rosenörn-Teilmanns dómsmálaráðherra Danmerkur, Saga, 1. tölublað (01.01.1970)